154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[21:25]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðu sem um margt var mjög ágæt. Ég nefndi það nú hér í gær að ég hef tekið eftir því á undanförnum misserum og á þessu kjörtímabili að þrátt fyrir að Viðreisn og Miðflokkurinn séu mjög ólíkir flokkar um margt þá er a.m.k. mjög mikill samhljómur á milli flokkanna þegar kemur að því að tala fyrir aðhaldi í ríkisrekstri. Mér finnst þetta reyndar vera einu flokkarnir tveir sem eru með hugann almennilega við skattgreiðendur í þessu landi þegar rætt er um útgjöld ríkisins og tilbúnir til að ganga lengra en aðrir flokkar í því að beita ríkisfjármálunum til þess að vinna bug á verðbólgunni og ná niður vaxtastiginu í landinu. En síðan auðvitað, eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns, þá greinir okkur talsvert á þegar kemur að gjaldmiðlinum, krónunni, og Evrópusambandinu. Ég ætla ekki að fara mjög djúpt ofan í það en mig langar þó að spyrja hv. þingmann, vegna þess að það er jú alveg rétt að við þingmenn Viðreisnar erum óþreytandi að benda á það að okkur finnst þessi gjaldmiðill svo gallaður að réttast væri að skipta honum út og taka upp annan gjaldmiðil og þá helst evru því að það væri auðvitað nærtækast og þá með inngöngu í Evrópusambandið, sem er auðvitað besta leiðin til að gera það. Þetta er auðvitað ekki eina ástæðan fyrir því að hagkerfið hér sveiflast mikið en þetta er vissulega mjög stór ástæða fyrir því. Nú erum við í mjög háum verðbólgutölum hérna á Íslandi og við erum í gríðarlega háum vaxtatölum. Stýrivextir eru hér yfir 9%. Menn geta tekið óverðtryggð húsnæðislán á því sem voru yfirdráttarvextir hér fyrir einu, einu og hálfu ári síðan. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann viðurkenndi nú að það væru vissulega miklar áskoranir að vera með svona lítinn gjaldmiðil: Er hv. þingmaður ekki sammála því að hátt vaxtastig hér, viðvarandi hærra heldur en í Evrópu, og hærri verðbólgu hér, viðvarandi hærri heldur en í Evrópu, (Forseti hringir.) megi að hluta til rekja til þess að gjaldmiðillinn er lítill og sveiflast óþægilega mikið?